Ævar Þór Benediktsson

Þjóðsöguflétta heillaði börnin

Ævar Þór Benediktsson hlaut í ár hin eftirsóttu Bókaverðlaun barnanna, einu barnabókaverðlaunin sem valin eru af börnunum sjálfum. Verðlaunin hlaut hann fyrir Þína eigin þjóðsögu, en hún fékk flest atkvæði í kosningu sem 4500 grunnskólabörn á öllu landinu tóku þátt í. Ævar tók við verðlaununum í Borgarbókasafninu í Grófinni og skemmti gestum á eftir með vísindasmiðju.

Bókaverðlaun barnanna hafa verið veitt árlega síðan 2002, einni frumsaminni og einni þýddri bók. Útbúið er veggspjald sem hengt er upp í skólum og bókasöfnum um land allt til að auðvelda börnunum valið. Hver kjósandi má velja þrjár af sínum eftirlætisbókum frá nýliðnu ári.

Þín eigin þjóðsaga sló rækilega í gegn í vetur sem leið, var ein af söluhæstu bókum ársins og gladdi jafnt börn sem fullorðna. Ævar vinnur að framhaldi á þessum vinsæla bókaflokki en fyrst kemur þó út bók sem hann skrifaði í tengslum við lestrarátak Ævars vísindamanns og ber titilinn Risaeðlur í Reykjavík. Sú þrususpennandi saga kemur út í næsta mánuði og lestrarhestar á öllum aldri geta byrjað að láta sig hlakka til!

INNskráning

Nýskráning