Meðal gesta Bókmenntahátíðar í fyrra var þýsk-íslenski rithöfundurinn Kristof Magnusson (f. 1976) sem þekktur er í Þýskalandi bæði fyrir leikrit og sögur en líka fyrir frábærar þýðingar sínar á skáldsögum íslenskra höfunda, Þórbergs Þórðarsonar, Auðar Jónsdóttur, Einars Kárasonar, Steinars Braga og Hallgríms Helgasonar. Þegar hann kom fram á hátíðinni hafði engin bók komið út eftir hann á íslensku en margir höfðu lesið skáldsöguna Zuhause sem kom út 2005 og gerist bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Árið 2010 sló Kristof rækilega í gegn með skáldsögunni Das war ich nicht, ævintýralegri frásögn úr heimi banka og bókmennta. Þessi skáldsaga er væntanleg í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar hjá Máli og menningu í haust undir heitinu Það var ekki ég.
Sagan fjallar um kynni ungs Þjóðverja; Jaspers, sem starfar í stórum banka í Chicago við landa sinn Meike, unga konu sem komin er til Bandaríkjanna til að leita uppi ameríska metsöluhöfundinn sem hún hefur þýtt á þýsku. Rithöfundurinn, Henry LaMarck, hefur látið sig hverfa af angist yfir því að honum gengur ekkert að skrifa. Öll er þrenningin á flótta í bókinni, Jasper undan yfirmönnum sínum í bankanum sem verða þess varir að hann hefur farið í hæsta máta ógætilega með fé, Meike frá kærastanum í þaulhönnuðu íbúðinni í Hamborg og Henry frá útgefandanum sem vill fá handrit ekki síðar en undir eins. Meike tekst að finna Henry og þegar Jasper þarf að flýja úr bankanum í ofboði leggja þau á sameiginlegan flótta sem verður bæði spennandi og sprenghlægilegur.
Í blaðinu Welt am Sonntak birtist viðtal við Kristof þar sem blaðamaður spurði meðal annars: „Hvernig datt þér í hug að skrifa skáldsögu um banka?“
„Peningar hafa lengi heillað mig sem söguefni,“ svaraði Kristof, „kannski af því að það eru eiginlega engar samtímabókmenntir til um það efni. Peningar eru líka skemmtilegt efni. Þeir veita okkur völd, okkur dreymir um allt sem við gætum gert ef við ættum nóg af þeim og þeir eru undirrót margra illdeilna – en í bókmenntunum er vandlega þagað yfir þeim. Samt eru bankar og kauphallir alls ekki óskáldlegir staðir.“ Einmitt þetta síðasta færir Kristof sönnur á svo ansi skemmtilega í sögunni sinni.